Skali merking
Ef þig vantar filmu í útidyrahurð eða eldhúsglugga, merkingu á bílinn nú eða sandblástursfilmu, merkingar eða skilti fyrir fyrirtæki þá getur Skali merking séð um verkið.
Við hittum Þór Ólafsson prentsmið og eiganda Skala merkingar til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Skali sér um prentun og merkingar af ýmsu tagi.
40 ára reynsla
Þór hefur unnið við prentsmíði og skiltagerð í 40 ár og þekkir því fagið út og inn. Árið 2017 stofnaði hann Skali merking og er með fínt aðsetur á verkstæðinu sínu við Álfaskeið. Hann segist vinna jafnt fyrir fyrirtæki og einstaklinga og hefur séð um allar merkingar fyrir ýmis fyrirtæki til fjölda ára. „Þegar ég vinn fyrir einstaklinga þá snýst þetta líka mikið um að ráðleggja fólki og hjálpa því að hanna útlitið hvort sem það er fyrir útidyrahurðir, í eldhúsglugga nú eða skreytingar á veggi“, segir Þór sem leggur mikið upp úr því að veita góða þjónustu.
Áhersla á gæði
„Í þessum bransa skipta smáatriðin og gæðin öllu máli“, segir Þór og sýnir stoltur glænýjan skurðarplotter (skurðarvél) sem er ótrúlega nákvæmur og getur skorið út allar filmur og kartonpappír. Samkvæmt honum er mikilvægt að fylgja tækninni og vera með bestu tækin.
Það eru til margskonar efni sem hægt er að vinna með en Þór leggur áherslu á gæði. „Ég vil alltaf vinna með besta hráefnið þar sem gæðin eru tryggð“, segir hann og bætir við að núna séu líka komnar á markað fólíur sem eru ekki úr plasti en ná sömu gæðum, eitthvað sem hann nýti mjög gjarnan og ítrekar að hann flokki allan úrgang á verkstæði sínu.
Jólalegir gluggar
Þór er með viðskiptavini víðsvegar um höfuðborgarsvæðið en hefur þó reynt að einbeita sér að Hafnarfirði undanfarin ár. Hann hefur mikla löngun til að gera bæinn okkar enn fallegri með skreytingum í gluggum þá sérstaklega núna fyrir jólin. Hann hefur því verið duglegur að tala við verslunareigendur og bjóða þeim þjónustu sína.
Nú þegar er Þór búinn að setja upp jólaskreytingar í gluggum hjá nokkrum fyrirtækjum og stofnunum í bænum en er einnig að selja jólakúlur sem límast í glugga með mismunandi mynstri í Litlu Hönnunar Búðinni. „Það er mikilvægt að taka fram að jólakúlurnar mínar eru úr efni sem ekki skilur eftir sig lím þegar þegar það er tekið niður“, segir Þór en þegar við komum til hans var hann nýverið að klára rúmlega fjögurra metra langa jólasveinamynd í heimilisglugga, verkefni sem honum þykir afar skemmtilegt.
Áhrif Covid
Covid hefur haft töluverð áhrif á rekstur Skala. Mörgum viðburðum hefur verið aflýst þar sem Þór átti að sjá um allar merkingar og hann hefur jafnframt átt töluvert af viðskiptavinum í ferðaiðnaðinum og lítið verið að gera þar.
Það er þó enginn bilbugur á honum og hann segir að nú sé mikilvægt að virkja hugmyndaflugið og leita nýrra verkefna og eitt af því er að leggja meiri áherslu á jólaskreytingar, eitthvað sem hann hefur ekki haft mikinn tíma til undanfarin ár.
Hlýlegt samfélag
Þór er Gaflari og hefur búið á nokkrum stöðum í Hafnarfirði í gegnum árin en síðustu 20 verið á Álfaskeiðinu þar sem hann kann afar vel við sig. Þegar hann er spurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann „hlýlegt samfélag, svolítið eins og gamall smábær en það hafa bara fleiri bæst í hópinn“. Þá bætir hann við að bæjarbragurinn sé líka á góðri uppleið með frábærum fyrirtækjum og verslunum á Strandgötunni og víðar þar sem menning og listir njóti sín.
Þór þykir líka vænt um upplandið og nefnir þá Hvaleyrarvatnið, Sléttuhlíðina, Helgarfellið og Krýsuvíkina en hann veiddi líka mikið í Kleifarvatni sem barn.
Nýtur þess að veiða
Þegar Þór er ekki í vinnunni þá flakkar hann gjarnan um hálendið, bæði keyrandi og gangandi og hefur sérstaklega gaman af því að veiða. „Ég var laxveiðileiðsögumaður í yfir 20 ár en er núna farin að veiða meira sjálfur og nýt þess mjög“, segir Þór að lokum.