BRIKK
Saltkaramellusnúður, kanilsnúður með mascarpone kremi, ostasalat og grófa súrdeigsbrauðið eru vinsælustu vörurnar hjá Brikk á Norðurbakkanum.
Við hittum eigendurna þá Davíð Magnússon, bakara og Odd Smára Rafnsson, matreiðslumann til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Snúðarnir eru ákaflega vinsælir hjá BRIKK.
Hugmyndin nokkurra ára
Brikk opnaði þann 16. júní 2017 á Norðurbakkanum og viðtökurnar voru frábærar strax frá fyrsta degi. Þetta var sumarið þar sem veðrið lék við okkur en Davíð og Oddur sáu samt varla sólina enda unnu þeir frá morgni til kvölds. „Þetta var smá geggjun en á sama tíma svo frábær og skemmtileg minning“, segir Davíð.
Hugmyndin að fyrirtækinu hafði þó í raun orðið til um tíu árum áður þegar Davíð og Oddur unnu saman og ræddu þá sín á milli að það vantaði sárlega hágæða íslenskt bakarí sem væri að gera eitthvað annað og öðruvísi en það sem var á boðstólnum þá. „Mér fannst viss stöðnun í gangi í bakaríum og langaði að gera eitthvað í því, útvíkka hugsunina og koma inn með sjónarhorn kokksins“, segir Oddur.
Þeir félagar hittust aftur fyrir tilviljun á Thorsplaninu haustið 2016 og bar þá hugmyndin aftur á góma og að þessu sinni ákváðu þeir að láta verða af þessu. Einar Hjörvar Benediktsson æskuvinur Davíðs kom þá inn í hópinn og úr varð að fjölskyldurnar þrjár opnuðu Brikk.
Allt gert frá grunni
Upphaflega hugmyndin var að vera einna helst heildsala og þjónusta minni veitingastaði og veisluþjónustur þar sem okkur fannst vera pláss á markaði fyrir slíka starfsemi, sem fæli það í sér að sérframleiða vörur í minna magni fyrir þessa staði. Bakaríið átti síðan að fylgja með en hugmyndin snerist bara strax á fyrsta degi í höndunum á okkur segja þeir.
Viðtökurnar voru, eins og segir hér að ofan, afar góðar strax frá fyrsta degi en mikið er gert úr því að hafa umhverfið hlýlegt og innréttingar fallegar. „Fólki á að líða vel hjá okkur, upplifa sig eins og á veitingastað þó verðlagið sé annað“, segir Oddur.
Hjá Brikk er mikið lagt upp úr því að búa til góða og vandaða vöru. „Við viljum vera einstakir og ákváðum strax að gera allt frá grunni og förum alla leið með það“, segir Davíð og bætir við að það sé mikil vinna bakvið hvern snúð. „Við notum ekta súkkulaði og rjóma í kremin okkar og nautakjötið í samlokurnar er hægeldað“, segir Oddur.
Norðurbakkinn og Miðhella
Þeir voru búnir að skoða nokkrar staðsetningar en þegar Norðurbakkinn var auglýstur til leigu voru þeir fljótir að stökkva á það húsnæði. „Við vorum eiginlega að keyra framhjá þegar verið var að setja skiltið Til leigu upp og drifum okkur strax á staðinn“, segir Davíð sem er afar ánægður með staðsetninguna. Í fyrstu fór öll framleiðsla fram á Norðurbakkanum en fljótlega varð rýmið of lítið. Í dag eru þeir því með húsnæði á Miðhellu þar sem öll forvinnsla fer fram en vörurnar eru bakaðar á Norðurbakkanum og nýju útibúi þeirra á Mýrargötu í Reykjavík sem var opnað snemma á síðasta ári.
Á Miðhellu fer jafnframt öll framleiðsla heildsöluhluta Brikks fram en sá hluti fyrirtækisins, sem fór ört vaxandi hefur eitthvað dregist saman í ástandinu.
Áhrif Covid
Covid hefur haft töluverð áhrif á reksturinn. Lokað hefur verið í veitingasal á báðum stöðum Brikks og stórir viðskiptavinir hurfu einfaldlega, enda engar veislur og einhverjir hættu rekstri.
Þeir segja að það hafi ekki síður verið mikil áskorun að þurfa að breyta öllum verkþáttum. „Hvernig eigum við að taka á móti fólki? Eigum við að loka veitingasal eða hafa opið? Það eru margar ákvarðanir sem við höfum þurft að taka og alltaf mikil óvissa“, segir Davíð.
Þeir eru þakklátir fyrir að hafa þrátt fyrir allt ekki þurft að segja upp fólki en stærsta áskorunin var að útvega starfsfólki í framleiðslunni vinnu. „Við fórum bara út og leituðum og leituðum að verkefnum og það tókst“, segir Davíð. Þeir eru sem dæmi núna með nokkrar vörutegundir inni í Nettóbúðunum, það átti upphaflega bara að vera pizzadeigið en fleiri vörur hafa ratað í hillur Nettó t.d. jólasmákökur og svo eru fleiri vöruliðir væntanlegir þar inn á næstu dögum og vikum.
Best við Hafnarfjörðinn
Oddur er Hafnfirðingur í húð og hár sem og Allý eiginkona Davíðs, og fyrrum bekkjarfélagi Odds í Hvaleyrarskóla, sem dró Davíð í fjörðinn úr Kópavoginum. Davíð segir að hér sé gott að búa, „það er notalegur smábæjarbragur í Hafnarfirði, nærumhverfið sé fjölbreytt og stutt í afþreyingu fyrir fjölskylduna.
Oddur segir að það séu bara tveir staðir á Íslandi sem hann gæti hugsað sér að búa á, það eru Hafnarfjörður og Akureyri sem eru að hans mati nokkuð lík bæjarfélög. „Við erum að vissu leiti sveit í borg, þétt samfélag og næstum því eins og vera úti á landi“, segir Oddur aðspurður um hvað sé best við Hafnarfjörðinn.
Söngur, veiðar, golf og folf
Þegar Davíð er ekki í vinnunni þá hefur hann gaman af því að rífa eitthvað í sundur. „Ég smíða gjarnan en fer einnig í golf og stangveiði. Síðan eru það samverustundirnar með fjölskyldunni“, segir hann.
Oddur segist syngja mikið og vera mörgum sönghópum og kórum en hann fer einnig gjarnan í veiði, bæði skot og stöng. „Við fjölskyldan erum frisbígolfspilarar og sækjum folfvelli víðsvegar um landið. Ég er því ánægður með að það sé búið að uppfæra völlinn á Víðistaðatúni en það mætti gjarnan bæta við öðrum velli í bæjarlandinu. Ég legg til að gerður verði folfvöllur við Hvaleyrarvatn, Brikk er þá til í að fjármagna eina holuna“, segir Oddur að lokum með bros á vör.