Flúrlampar - Lampar.is

Fjölskyldufyrirtækið Flúrlampar á Reykjavíkurveginum selur ekki einungis ljós, lampa, perur og íhluti tengda ljósum heldur smíða þau einnig ljós og lampa, gera við og eru mjög öflug í að LED-væða eldri lampa sem og setja upp ljósastýringar.  

Við hittum eigandann og framkvæmdastjórann Jóhann Lúðvík Haraldsson og Elmu Björk Júlíusdóttur sambýliskonu hans sem sér um fjármálin og innflutning.

flurlampar7.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Sérsmíða ljós og gefa gömlum nýtt líf.

Úr gamla Rafha

Flúrlampar rekur sögu sína allt til ársins 1977 þegar gamla Rafha (Raftækjaverksmiðja Hafnarfjarðar) var skipt upp í nokkur fyrirtæki og úr lýsingahlutanum varð Flúrlampar sem starfaði til fjölda ára á Kaplahrauni. Árið 2004 keypti Jóhann fyrirtækið sem hefur aukið bæði vöruúrval og þjónustu á undanförnum árum og er nú staðsett á Reykjavíkurvegi 66.

flurlampar5.jpg

Framleiða sín eigin ljós

Verkefnin hjá Flúrlömpum eru ansi fjölbreytt. „Við erum mikið með ljósastýringar fyrir stærri byggingar, svo sem skóla, hótel og banka en við sáum sem dæmi um ljósastýringu í nýja Sólvangi“, segir Jóhann. Þegar talað er um ljósastýringar er átt við forritaðan stjórnbúnað sem getur stýrt allri lýsingu í stórri byggingu. Öllu er stýrt frá einum skjá eða síma og hægt að stilla ljósin eftir því sem við á, hvort sem eigi að fara að halda fyrirlestur, veislur,  þrífa eða bara hafa góða dagsbirtu, möguleikarnir eru ansi margir.

„Frá því við fluttum á Reykjavíkurveginn árið 2017 hefur smásalan aukist til muna en við erum með fjölbreytt úrval af perum, ljósum og lömpum, bæði sem við smíðum sjálf sem og önnur sem við flytjum inn“, segir Elma.  Á fyrstu hæð er verslun, lager og skrifstofur en í kjallara hússins er framleiðsla og verkstæði. Þar eru ljós smíðuð frá grunni, málmur beygður, gataður, dufthúðaður og ljósgjafinn settur inn. „Ætli við séum ekki eini aðilinn á Íslandi sem sérsmíðar ljós frá a til ö“, segir Jóhann stoltur og greinilegt að mikið hugvit og reynsla býr þarna innanhúss.

flurlampar6.jpg

Gefa gömlum ljósum nýtt líf

Það hefur verið gífurleg þróun í ljósaheiminum á undanförnum árum og spilar LED tæknin þar stórt hlutverk. Líftími LED ljósa er allt upp í 12 ár og því mikil hagkvæmni að vera með þannig ljós sérstaklega í stórum byggingum þar sem erfitt er að skipta um perur. „Við höfum mikið verið að setja LED ljósgjafa inn í eldri ljós og gefa þeim þar með nýtt líf, sem dæmi settum við nýverið LED í gömlu glæsilegu ljósakrónurnar í Þjóðleikhúsinu“, segir Jóhann og ítrekar að þó ljós virki ekki lengur þá sé alveg óþarfi að henda umgjörðinni, það sé hægt að setja nýja ljósgjafa í gamla lampa sem hann gerir greinilega mjög gjarnan.

flurlampar9.jpg

Vöfflur á föstudögum

Fastaviðskiptavinir Flúrlampa eru margir en þar á meðal eru rafvirkjar, umsjónarmenn bygginga og aðrir stórnotendur sem finna oftast það sem þeir þurfa á Reykjavíkurveginum enda er framboð íhluta gífurlega mikið. Jóhann og Elma leggja mikið upp úr því að veita góða þjónustu og vilja að það sé gott að koma til þeirra. Þar er því notalegt sófahorn og alltaf heitt á könnunni. Á föstudögum er ávallt skellt í vöfflur og láta góðvinir sig sjaldan vanta og oft spinnast fjörugar umræður og málin rædd.

Eins og fyrr segir þá er hér um fjölskyldufyrirtæki að ræða en synir Jóhanns þeir Óliver og Vilmar Breki starfa báðir í  fyrirtækinu. „Þeir ólust báðir dálítið upp hérna og setja núna svip sinn á fyrirtækið og hafa sérhæft sig á ólíkum sviðum“, segir Jóhann og Elma bætir við að þeir séu nú bestu sölumennirnir þá sérstaklega í tæknilegri málum.

Áhrif Covid

Aðspurð hvort Covid hafi haft einhver áhrif á reksturinn segir Elma að blessunarlega hafi faraldurinn ekki enn haft nein sérstök áhrif enda þurfi allir lýsingu sama hvert árferðið er. Það hafi verið ágætt að gera í vefversluninni þeirra og greinilegt að margir séu að uppgötva búðina og þau mikið að senda út á land.

flurlampar8.jpg

Besti staður í heimi

Jóhann er Gaflari í allar ættir og hefur búið hér alla sína tíð, fyrir utan eitt ár í Vestmannaeyjum. Þau segjast hvorug getað hugsað sér að búa annars staðar. „Bæjarbragurinn er einstakur, þó við séum stækkandi bær þá náum við enn að halda í góðan smábæjarbrag“, segir Elma og Jóhann bætir við „þetta er besti staður í heimi, sérstaklega þegar veður er gott.“

Þegar þau eru ekki í vinnunni þá gengur Jóhann gjarnan á fjöll og þau ferðast líka gjarnan, bæði innanlands og erlendis. Góðar stundir með vinum og fjölskyldu eru þeim einnig mikilvægar. „Við reynum að vanda okkur við að taka frí um helgar, en það gengur samt ekki alltaf upp, eitthvað sem fleiri fyrirtækjaeigendur þekkja líklega mætavel“, segir Elma að lokum.

Previous
Previous

Burkni

Next
Next

Saga Natura