Burkni

Blómabúðina Burkna þekkja líklega flestir Hafnfirðingar og margir sem eiga ljúfar minningar tengdri búðinni en hún hefur verið starfandi frá árinu 1962 og alltaf í eigu sömu fjölskyldunnar.

Við hittum Gyðu Gísladóttur eiganda og Brynhildi dóttur hennar sem sögðu okkur allt um Burkna.

burkni8b.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Það eiga margir ljúfar minningar tengdar Burkna.

Mamma mikil ævintýrakona

Burkni var fyrst opnaður þann 10. nóvember árið 1962 af hjónunum Sigrúnu Þorleifsdóttur (Dúnu) og Gísla Jóni Egilssyni, foreldrum Gyðu. Fyrstu sex árin var búðin á Strandgötu 35 en flutti þá á Linnetstíginn og hefur verið þar síðan. Dúna var alltaf að búa til pappírsblóm úr kreppappír og seldi þau meðal annars fyrir jólin en þegar Gísli varð að hætta á sjónum ákváðu þau að opna blómabúð.

burkni1.jpg

„Mamma var mjög framsækin og mikil ævintýrakona. Hún lagði mikið upp úr jólaskreytingum og var fyrst hérna í bænum til að strengja jólaljós yfir götuna og lýsa upp búðargluggann. Hann vakti ávallt athygli og fólk kom víðsvegar að til að skoða gluggaskreytingarnar og kaupa varning sem var sjaldséður á þeim tíma“, segir Gyða. Í Burkna fengust sem dæmi fyrst hér á landi vörur frá Bing & Gröndal og Georg Jensen.

Dúna er enn að gera pappírsblóm en hún verður 93 ára í desember og býr á Hrafnistu. „Amma fylgist enn spennt með rekstrinum og  hefur skoðanir á hlutunum og kemur alltaf af og til með ráðleggingar“, segir Brynhildur með bros á vör.

Gyða keypti búðina af mömmu sinni árið 1996 og sér í dag aðallega um skreytingar og daglegan rekstur en Brynhildur einna helst um fjármál, starfsmannahald og markaðsmál en segist líka þurfa að stússast í blómunum til að næra sköpunarþörfina.

Alltaf afmæli

Konudagurinn og mæðradagurinn eru stærstu dagarnir hjá Burkna. Í kringum jólin er einnig mikil sala en hún dreifist yfir lengra tímabil. Reksturinn sveiflast annars eftir því sem er að gerast í þjóðfélaginu en þó er ákveðinn grunnur sem heldur búðinni gangandi. „Fólk á alltaf afmæli, sama hvað á gengur og blóm eru notuð við öll stærstu tímamót lífsins“, segir Gyða.

burkni7.jpg

Vöruúrvalið breytist annars í takt við tímann. Í dag er selt minna af gjafavöru sem þær mæðgur tengja við umhverfismeðvitund fólks. Þær einbeita sér því meira að blómum af ýmsum gerðum en nú eru pottablóm og þurrkuð blóm mikið í tísku.

Skemmtilegast við reksturinn samkvæmt þeim mæðgum er að hver árstíð hefur sinn sjarma. Laukarnir og greinarnar sem koma í mars eru mikill vorboði en hver árstíð hefur upp á eitthvað fallegt að bjóða.

Ljúfar minningar

Burkni á stóran hóp viðskiptavina sem kemur reglulega og hefur gert í mjög mörg ár. „Það eru margir sem halda alltaf tryggð við búðina og í raun mann frá manni, við höfum oft heyrt að mamma eða amma hafi sent viðkomandi til okkar“, segir Gyða.

burkni9.jpg

Viðskiptavinir eiga einnig sterkar æskuminningar tengdar búðinni. „Fólk segir okkur frá styttu sem það fékk í afmælisgjöf þegar það var 10 ára eða að það hafi alltaf dreymt um að vinna hér í æsku, nú eða einhverjar skemmtilegar fjölskyldusögur tengdar Burkna“, segir Brynhildur og bætir við að reglulega sé spurt um Dúnu ömmu og beðið fyrir kveðju til hennar.

Áhrif Covid

Á tímum Covid þegar flestir eru mikið heima er greinilegt að fólk reynir að gleðja sig og aðra með því kaupa blóm. Það hefur því orðið aukning í sölu sem þær mæðgur eru afar ánægðar með. Það kom reyndar smá frost í allt í mars en síðan hefur gengið vel og þær þakklátar fyrir að hafa sloppið við veikindi og geta haft búðina opna.

„Það myndast skemmtileg stemmning kringum helgarinnar núna þegar allir eru heima og við reynum að stíla inn á vendi sem kosta ekki mikið og erum gjarnan með svokallaða haustheimillisvendi sem og kerti þessa dagana “, segir Brynhildur.

Best við Hafnarfjörðinn

Þær mæðgur eru báðar fæddar og uppaldar í Hafnarfirði og Gyða segir að þetta sé fallegasti bærinn á landinu og bætir við að hér sé einhver notaleg þorpstemmning. „Við erum góður saman þjappaður hópur og fólk hittist hér í miðbænum sem er svo dýrmætt“, segir hún. Brynhildur tekur undir og segir einmitt að mannlífið sé það besta við í Hafnarfjörðinn.

burkni13.jpg

Vinnan líka áhugamál

Fjölskyldan er greinilega samrýmd og fer gjarnan í sumarbústað í frítíma sínum. Þær viðurkenna þó að þar sé líka mikið spáð í búðina, göngutúrarnir fara oft í að týna köngla eða eitthvað fallegt í skreytingar en Kristján sonur Gyðu, tengdabörnin og barnabörnin taka mjög gjarnan þátt. „Við erum öll saman í þessu stórfjölskyldan“, segir Gyða og greinilegt að það eru óljós skil milli vinnu áhugamáls og þau hafa ástríðu fyrir því sem þau eru að gera.

 

Previous
Previous

Rekstrarumsjón

Next
Next

Flúrlampar - Lampar.is