Rekstrarumsjón

Innheimta, tryggingar, þrif, garðsláttur, snjómokstur og aðalfundur eru hluti verkefna sem húsfélög í fjölbýlishúsum þurfa að annast. Hafnfirska fjölskyldufyrirtækið Rekstrarumsjón aðstoðar húsfélög við öll þessi verkefni og meira til.

Við hittum Helgu Soffíu Guðjónsdóttur og Bjartmar Stein Guðjónsson sem eru bæði framkvæmdastjórar fyrirtækisins á skrifstofu þeirra á Dalshrauni og kynntumst starfseminni.

Rekstrarumsjón5.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Öll þekkingin innan fjölskyldunnar hjá Rekstrarumsjón.

Öll þekkingin innan fjölskyldunnar

Systurnar Helga Soffía og Hrafnhildur bjuggu báðar í fjölbýlishúsi, Helga Soffía var gjaldkeri í sínu húsfélagi og Bjartmar maður Hrafnhildar var formaður í þeirra. Þær töldu svigrúm á markaði til stofnunar á fyrirtæki sem gæti aðstoðað húsfélög við hin ýmsu verkefni og veitt jafnframt persónulega og góða þjónustu. „Við áttuðum okkur svo fljótt á því að í raun væri öll sú þekking sem nauðsynleg er innan okkar fjölskyldu. Í systkinahópnum er lögfræðingur, viðskiptafræðingur og byggingartæknifræðingur og pabbi okkar Guðjón Snæbjörnsson er múrarameistari og mamma vön að sjá um bókhald“, segir Helga Soffía. Úr varð að Rekstrarumsjón var stofnað árið 2017 en eigendur eru foreldrarnir þau Guðjón og Soffía auk barna þeirra fjögurra, Elínar Önnu, Björns, Hrafnhildar og Helgu Soffíu.

Helga Soffía, sem er viðskipta- og hagfræðingur, og mágur hennar Bjartmar, lögfræðingur, sjá um daglegan rekstur en öll systkinin og foreldrarnir koma að rekstrinum á einn eða annan hátt.

Rekstrarumsjón6.jpg

Yfir 100 húsfélög

Verkefni húsfélaga geta verið mörg, sum jafnvel flókin og þá getur verið betra að fá fagfólk í verkið. „Við erum í raun hægri hönd stjórnar húsfélaga og veitum þeim faglega ráðgjöf og sjáum um hin ýmsu verkefni fyrir þau“, segir Bjartmar. Rekstrarumsjón sér meðal annars um árlega aðalfundi og þar á meðal er ársreikningagerð, rekstraráætlun og húsgjaldaskipting svo hver íbúðareigandi viti nákvæmlega hvað hann er að greiða fyrir. „Við semjum við tryggingarfélög, sjáum um bankareikninga og sendum út kröfur, bjóðum út hin ýmsu verk s.s. þrif, snjómokstur og garðslátt, en veitum einnig almenna lögfræðiráðgjöf sem og ráðgjöf ef upp koma ágreiningsmál og komum þá fram sem hlutlaus aðili þess ágreinings til úrlausnar“, segir Helga Soffía.

Í dag eru yfir 100 húsfélög í þjónustu Rekstrarumsjónar, mörg hver hér í Hafnarfirði en einnig nokkur víðsvegar um suðvesturhornið.

Rekstrarumsjón3.jpg

Breytt samfélag

Á landsvísu eru aðeins um fjögur sambærileg fyrirtæki og það fyrsta var stofnað árið 2001. Hér er því á ferðinni frekar ný tegund af þjónustu og telja Helga Soffía og Bjartmar að það sé hluti af breyttu samfélagi og tengist auknum hraða í samfélaginu.  „Mér finnst vera nokkur kynslóðamunur þegar kemur að kaupum á svona þjónustu. Eldra fólk var vant að sjá um þetta allt sjálft en yngra fólk vill frekar kaupa út svona þjónustu af fagaðilum og nýta frítíma sinn með fjölskyldunni eða í eitthvað annað“, segir Bjartmar.

Áhrif Covid

Covid hefur blessunarlega ekki haft mikil áhrif á reksturinn en þau njóta góðs af því að geta sinnt þjónustu við sína viðskiptavini að mestu í gegnum tölvupóst og síma. Það er einna helst að það lengdist töluvert í aðalfundartímabilinu en samkvæmt lögum um fjöleignarhús á að halda aðalfundi frá janúar til apríl. Í ár var þó gerð undantekning frá því og teygðist töluvert á því tímabili. „Við höldum vanalega aðalfundi hérna á skrifstofunni en í ár leigðum við stóra sali víðsvegar til að geta haldið fjarlægð á fundum og tókst þannig að klára þá alla í sumar“, segir Helga Soffía.

„Við erum þrátt fyrir allt að ná markmiðum okkar fyrir árið“, segir Bjartmar og bætir við að þau séu í raun að stækka og eru að auglýsa eftir þjónusturáðgjafa þessa dagana.  Þau gerðu jafnframt nýverið styrktarsamning við körfuknattleiksdeild Hauka og þykir þeim mikilvægt að styrkja íþróttastarf í bænum.

Rekstrarumsjón2.jpg

Best við Hafnarfjörðinn

Helga Soffía er fædd og uppalin í Hafnarfirði og er Setbergið hennar staður. „Smábæjarfílingurinn er það besta við Hafnarfjörðinn, hér þekkja allir alla og hér er hægt að fá allt og það er í raun algjör hending ef ég þarf að fara út fyrir bæinn“, segir hún. Bjartmar tekur undir og bætir við að bókasafnið og kaffihúsin séu vinsæl hjá þeim í fjölskyldunni. „Eftir að það opnuðu góð veitingahús eins og Von og Krydd þá þarf ekkert að fara út fyrir bæinn, frábært að geta fengið mjög góðan mat og labbað síðan heim“, segir hann.

Hundar og handlaginn húsfaðir

Í frítíma sínum er Helga Soffía einnig mest hér í Hafnarfirði og fer þá gjarnan upp á Hvaleyrarvatn eða á hundasvæðin hér í kring með hundinn og barnið. Bjartmar fer gjarnan á veiðar, bæði skot og stöng en síðan var hann að byrja að læra trésmíði í kvöldskóla. „Mig dreymir um að vera handlaginn húsfaðir en held að smíðin nýtist líka vel í starfinu“ segir Bjartmar með bros á vör.

Previous
Previous

Urta Islandica – Matarbúðin Nándin

Next
Next

Burkni