Súfistinn
Fyrirtæki vikunnar er Súfistinn, kaffihúsið á Strandgötunni sem líklega allir Hafnfirðingar þekkja og mjög margir elska. Fastagestirnir eru margir og hafa verið alla tíð, sumir koma jafnvel tvisvar eða þrisvar á dag. Fyrst er það morgunkaffið, síðan einn bolli eftir vinnu og um kvöldið jafnvel samverustund með vinum.
Við settumst niður með feðginunum Birgi og Hjördísi til að kynnast Súfistanum enn betur.
Fyrirtæki vikunnar
Þegar sólin lætur sjá sig fyllist útisvæði Súfistans ansi fljótt
Kaffihúsamenning mótuð
Þegar hjónin Birgir Finnbogason og Hrafnhildur Blomsterberg stofnuðu Súfistann árið 1994 var markmiðið að breyta og móta kaffi- og kaffihúsamenningu Íslendinga. Þau vildu búa til nokkurs konar „félagsmiðstöð" þar sem fólk gat hisst yfir góðum kaffibolla og ákváðu að gera það hér í heimabæ sínum, en á þeim tíma var lítið sem ekkert að gerast á Strandgötunni og í raun enginn miðbær.
Rétta stemmningin mikilvæg
Súfistinn er fjölskyldurekið fyrirtæki og Birgir og Hrafnhildur stóðu alltaf vaktina í mörg ár og var það þeim mikið hjartans mál að búa til réttu stemmninguna. Þau vildu ekki vera bar þar sem áherslan er á áfengi heldur kaffihús eins og þau höfðu kynnst þegar þau bjuggu í Kaliforníu. Dæturnar tvær Hjördís og Valgerður ólust hálfpartinn upp á kaffihúsinu en í dag er Hjördís rekstrarstjóri og eigandi en byrjaði um tólf ára aldur að pakka te og var farin að afgreiða stuttu síðar.
Gott kaffi lykilatriði
Sérstaða Súfistans hefur allt frá upphafi verið gott kaffi og dýrindis heimagerðar tertur. Þau blanda sjálf sitt kaffi sem er frekar dökkristað en einnig flytja þau inn upprunavottað og organic te frá Bandaríkjunum. Sama uppskriftin hefur verið notuð í margar terturnar frá byrjun. Baby Ruth, Granola og marengsterturnar eru mjög vinsælar og gamla góða perutertan stendur alltaf fyrir sínu sem og Karl Viggó tertan , súkkulaðiterta með espresso. Allar kökur svo og matur er unnið á staðnum. Lagt er upp með að vera með "kaffihúsamat", létta rétti á hóflegu verði.
Hús með sögu
Súfistinn er í elsta steinhúsi bæjarins sem var byggt árið 1912. Þar hefur verið ýmis starfsemi í gegnum árin svo sem rakarastofa, hjólbarðaverkstæði, snyrtistofa, vefnaðarvöruverslun og hinn frægi Mánabar.
Birgir og Hrafnhildur keyptu húsið á sínum tíma og tóku það í gegn. Markmiðið í upphafi var að skapa rými og útlit er myndi lifa lengi og yrði ekki fórnarlamb tískubreytinga. Engar breytingar hafa því verið gerðar í 26 ár. Sömu innréttingar og veggirnir málaðir eins og í upphafi, eitthvað sem margir kunna vel að meta.
Af hverju Súfistinn?
Birgir fékk gefins bók um upphaf kaffidrykkju í miðausturlöndum frá vini sínum í Kaliforníu. Þar er sagt frá munkum í Norður Jemen sem voru fyrstir manna að drekka kaffi en munkarnir tilheyra reglu Sufi bræðralagsins. Út frá því varð nafnið Súfistinn til. Í kjölfarið hannaði Birgir lógó kaffihússins í samvinnu við Þóru Dal auglýsingateiknara. Lógóið hefur ávallt vakið mikla athygli, tvíræð manneskja, hvorki karl né kona en kaffibollinn í hendi.
Áhrif Covid
Covid hefur vissulega komið niður á rekstri Súfistans. Nauðsynlegt hefur verið að fækka borðum og opnunartíminn verið styttur, eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður. Eigendum hefur alla tíð þótt mikilvægt að hafa opið frá kl. 8:00 á morgnanna til kl. 23:30 á kvöldin til að geta þjónað þörfum mismunandi hópa, sumir að sækja morgunkaffið sitt meðan aðrir kjósa að koma á kvöldin og hitta vini. Nú ákveða þau opnunartímann viku fyrir viku og auglýsa það á Facebook síðu sinni.
Súfistinn er þó fyrst og fremst „local“ kaffihús og því lítið verið háð ferðamönnum. Eldra fólkið sem kom í tertur kemur nú síður vegna ástandsins, en á góðviðrisdögum er alltaf mikið að gera enda þykir mörgum gott að geta setið úti.
Best við Hafnarfjörðinn
Þau feðginin voru spurð hvað væri best við Hafnarfjörðinn. Hjördís sagði það vera að hér væri fallegur miðbæjarkjarni og í Hafnarfirði gæti hún nálgast nánast allar þær vörur sem hennar heimili þyrfti á að halda. Birgir nefndi einnig miðbæinn en nálægðin við hraunið og sjóinn væri honum líka mjög mikilvæg
Þau eru annars afar ánægð með þróun miðbæjarins undanfarin ár og fagna því hversu fjölbreyttar verslanir sem og kaffi- og veitingastaðir eru hér að finna. Þau eru einnig afar ánægð með framtak bæjarins að hafa sett upp jólaþorp á sínum tíma, það hafi verið mikil lyftistöng fyrir rekstur á Strandgötunni sem og miðbæjarstemmninguna og sjálfsmynd bæjarins.
Að lokum segjast þau feðginin vera afar spennt fyrir því þegar ráðhústorgið verði orðið grænt eins og framtíðarskipulag geri ráð fyrir.