Amarayoga
Amarayoga er lítil og persónuleg jógastöð í hjarta Hafnarfjarðar þar sem hægt er að sækja mjúkt morgunjóga, hádegisjóga, síðdegisjóga, kvöldtíma sem og jógakennaranám.
Við ákváðum að fá að prófa einn tíma og spjalla við Ástu Maríu eiganda stöðvarinnar í kjölfarið.
Fyrirtæki vikunnar
Amarayoga, lítil og persónuleg jógastöð á Strandgötunni
Jógaáhuginn hófst í æsku
„Ég á einhverja óljósa æskuminningu um þátt í sjónvarpinu um jóga og mig sitjandi eftir það á teppi og gera ýmsar teygjur, að þykjast vera jógi“, segir Ásta María aðspurð um hvernig áhuginn á jóga hafi kviknað. Hún telur einnig að dvöl á Sri Lanka þegar hún var 13 ára, þar sem hún kynntist hindúum og búddistum og varð forvitin um andlegt líf og hugleiðslu, hafi eitthvað með þetta að gera. Á unglingsárunum fór hún með mömmu sinni og stóru systir í jógatíma og byrjaði upp frá því að leita sér að tímum og námskeiðum.
Í nokkuð mörg ár lá jógaiðkunin samt niðri og hún fór að eignast börn og vann sem skjalaþýðandi. Eftir síðasta barnsburðinn árið 1998 var líkaminn í hálfgerðum henglum og hún leitaði því aftur í jógað og komst fljótt að því að þetta var það sem hún þurfti.
Hún vissi að hún þyrfti þrýsting til að halda iðkuninni áfram og skellti sér því í jógakennaranám hjá Ásmundi Gunnlaugssyni og Yogi Shanti Desai veturinn 1999 til 2000 og þá var ekki aftur snúið. Hún fór að vinna við heilsuna sína og hefur ekki séð eftir því.
Fyrsta jógatímann sinn var hún með í íþróttahúsinu í gamla Lækjarskóla veturinn 2001 en kenndi eftir það víða á höfðuðborgarsvæðinu. Árið 2011 opnaði hún sína eigin stöð á Strandgötunni og nýtur þess að geta gengið í vinnuna.
Mikilvægast að kyrra hugann
Það eru vissulega til margar gerðir af jóga í dag en í huga Ástu Maríu er jóga hugleiðsla. „Fyrir mér snýst jóga um að kyrra hugann. Allt annað er aukaatriði. Mögulega endum við með sterkan og lipran líkama, en ef hugurinn og tilfinningarnar eru ekki í ró erum við ekki vel sett. Jóga, gert á réttan hátt, kyrrir hugann og allt verður miklu auðveldara“, segir hún.
Í tímum hennar Mjúkt flæði eru því aðallega rólegar styrktaræfingar, alveg eins og hún lærði í upphafi en hún hefur vissulega þróað sinn stíl í gegnum árin. Í Amarayoga starfa fimm aðrir jógakennarar og því fjölbreyttir tímar á stundaskránni svo sem jóga nidra, vinyasa og kundalini jóga.
Ásta María er jafnframt formaður jógakennarafélagsins og er með sitt eigið jógakennaranám. Nú þegar hafa tíu hópar útskrifast hjá henni en fyrsti framhaldsnámshópurinn er nú á sínu öðru ári.
Amara – hið eilífa
Okkur lék forvitni á að vita hvernig nafn stöðvarinnar Amarayoga kom til. Samkvæmt Ástu Maríu kom það til hennar í gegnum smá krókaleiðir og tengist gömlu netfangi sem hún bjó til og var amar@ (stytting á nafni hennar Ásta MARía) og hún notaði meðal annars í samskiptum sínum við bandarísk jógasamtök. Eitt sinn fékk hún símtal frá nunnu í samtōkunum, sem bar nafnið Amara. Ásta María hafði lært smá sanskrít á háskólaárunum sínum og fletti nafninu upp og komst að því að það þýðir “ódauðlegt” eða “eilíft”. Þegar Ásta María opnaði stōðina sína fannst henni þetta nafn því afar viðeigandi og fallegt, hið eilífa jóga.
Gullkonurnar
Nokkrar konur sem byrjuðu að sækja jógatíma hjá Ástu Maríu árið 2001 koma enn í dag til hennar og hafa fylgt henni milli stöðva í gegnum árin. Nú eru þær fastagestir á Strandgötunni og Ásta María kallar þær gullkonurnar sínar. Annars er stór hópur fólks sem kemur alltaf aftur og aftur ár eftir ár.
Áhrif Covid
Um miðjan mars þurfti Ásta María að loka stöðinni vegna Covid og fékk ekki að opna aftur fyrr en þann 25. maí og þá bara með hálfbókaðan sal. Í sumar mátti allt vera opið en þá voru vissulega flestir í sumarfríi. Hún hlakkaði því til ágústmánaðar og ætlaði að taka á móti fólkinu sínu með bros á vör en þá kom seinni bylgjan.
Nú er búið að fjarlægja alla púða og teppi, þar sem ekki er hægt er að sótthreinsa það eftir hverja notkun. Í hillunum eru einungis kubbar og dýnur en fólk hvatt til að koma með sinn eigin búnað. Þátttakendum í hverjum tíma fækkar úr 15 niður í 6 og nauðsynlegt er að hafa meiri tíma á milli kennslustunda til að geta hreinsað og fólk mætist ekki í dyrunum.
Ásta María er þrátt fyrir allt þakklát fyrir að geta haft opið og segir að Covid sé í raun mjög góð jógaæfing, við verðum bara að anda inn og anda út og sýna sveigjanleika.
Best við Hafnarfjörðinn
Þegar Ásta María er spurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hún strax: „Hann er einfaldlega bestur“ og heldur áfram að tala um dásamlega litla bæjarkjarnann og höfnina sem sé næstum hægt að sjá alls staðar frá. „Ég get labbað innanbæjar allra minna ferða og svo eru það gömlu húsin“, segir hún með glampa í augum.
Hellisgerði þykir henni einnig vera perla og Óla Run túnið sem er rétt við heimilið hennar. Nýi ærslabelgurinn sé æðislegur, þar sé nú þvílíkt líf og gleði og hún vill gjarnan sjá meira gert á því túni og nefnir tré og bekki sem dæmi.
Stingur puttum í moldina
Þegar Ásta María er ekki að kenna jóga eða sinna stöðinni sinni elskar hún að stinga puttunum ofan í í mold, það sé hennar hleðslustöð. Hún vil helst rækta það sem hægt er að borða og er með meðal annars með agúrkur, tómata, lækningarjurtir og kryddjurtir í sínum garði. Hún er búin að festa rætur hér í Hafnarfirði í orðsins fyllstu merkingu og finnst það dásamlegt.
Nánari upplýsingar um jógatímana í Amarayoga má finna hér