Fjörukráin

Freyjuhof, Tunna, Ísbjörn, Súð, Fjörugarður og Valhöll heita salirnir sex á Fjörukránni þar sem hægt er að fá kjötsúpu og svið en einnig flatbökur og hamborgara og tilvalið fyrir fjölskyldur, vinahópa eða vinnustaði til að heimsækja og upplifa víkingastemmningu.

Við settumst niður með Jóhannesi, manninum á bakvið Fjörukránna og dætrum hans Birnu og Unni til að kynnast staðnum þeirra.

fjorukrain7.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Freyjuhof er einn af sex sölum á Fjörukránni

Úr einu húsi í heilt þorp

Fjörukráin átti 30 ára afmæli þann 10. maí síðastliðinn en í upphafi var staðurinn einungis í gamla húsinu, næstelsta húsi Hafnarfjarðar byggt árið 1841. Þá tók staðurinn tæplega 40 manns í sæti en í gegnum árin hafa nokkrar viðbyggingar bæst við smátt og smátt og nú geta þau tekið á móti allt að 350 manns í mat í sex sölum.

„Ég vildi draga ferðamenn til Hafnarfjarðar og opnaði því útieldhús í tjaldi árið 1992 fyrir utan staðinn þar sem haldnar voru fjörugar víkingaveislur“ segir Jóhannes. Veislurnar urðu strax mjög vinsælar og nokkrum árum seinna varð víkingahátíðin til og allur reksturinn byggður í kringum þá hugmyndafræði. Stafakirkja var reist, þar sem Jóhannesi fannst ótækt að einungis Norðmenn ættu þannig kirkju, hótel kom í kjölfarið og bæjaryfirvöld gáfu götunni nafnið Víkingastræti enda nokkurs konar þorp risið.

fjorukrain2.jpg

Hugmyndaríkasti maður í heimi

Birna segir pabba sinn vera hugmyndaríkasta mann í heimi og hann fái stöðugt nýjar hugdettur og hugmyndir. Útlit staðarins sé í raun hans hugmynd en unnið að miklu leiti í samstarfi við listamennina Hauk Halldórsson og Erlend Magnússon. Innréttingar og húsgögn eru m.a. gerð úr hundrað ára gömlum neftóbaks- og víntunnum. Veggirnir skreyttir með málverkum og ýmsum víkingamunum. Á staðnum má jafnframt finna yfir 100 uppstoppuð dýr og 1200 lítra fiskabúr. „Pabbi er safnari, hann tímir ekki að henda neinu og litli afastrákurinn hans og nafni er alveg eins“, segir Birna jafnframt. Jóhannes brosir þá og segir að það hafi nú oft komið sér vel í gegnum tíðina.

fjorukrain6.jpg

Matur og upplifun

Að fara á Fjörukrána er því í raun miklu meira heldur en að fara út að borða, það er upplifun og ýmislegt sem hægt er að skoða. „Þetta er frábært staður fyrir fjölskyldur, mjög gaman fyrir krakka að sjá alla víkingamunina og fiskana“, segir Birna. Þá sé einnig tilvalið fyrir vinahópa eða vinnustaði að koma í víkingaveislu og jafnvel lenda í óvæntu víkingaráni.

Hópar, sem og vissulega einstaklingar og fjölskyldur, geta einnig gist við Víkingastræti þar sem nú eru 54 herbergi í ýmsum stærðum og í bakgarði hótelsins er heitur pottur og gufubað.

Áhrif Covid

Undanfarin ár hefur langstærsti hluti viðskiptavina verið erlendir ferðamenn sem hafa sótt í víkingaveislur og reksturinn gengið afar vel. Covid hafði því mjög mikil áhrif á starfsemina og þau ákváðu að loka í þrjá mánuði. Tíminn var þó nýttur vel og farið í ýmsar betrumbætur á staðnum, sem loks gafst tími fyrir. Það var málað, skipt um gólfefni, eldhúsið lagað og margt fleira.

„Nú þurfum við að fara aftur á upphafsreitinn og fá Íslendinga til okkar“, segir Jóhannes og Birna tekur undir og segir það bara vera spennandi og gaman að takast á við. „Við erum sem dæmi nú komin með flatbökur á matseðilinn, eitthvað sem ég var búin að reyna að ná í gegn í mörg ár án árangurs“, segir Birna og brosir. Vissulega er þó enn í boði svið, kjötsúpa, humarsúpa og margt annað girnilegt en nýr vetrarmatseðill verður kynntur á næstunni.  

fjorukrain1.jpg

Pabbi öflugur í uppvaskinu

Feðginin sem eru greinilega mjög samrýmd segjast í raun ganga í öll störf. „Pabbi er öflugur í uppvaskinu en við systur getum líka gert ótrúlega margt enda þekkjum við staðinn út og inn, ólumst upp hér að hluta“, segir Unnur sem er hótelstjórinn í dag en Birna systir hennar er veitingastjóri staðarins. Það er greinilegt að feðginin eru alls ekki af baki dottin og vita að þó að á brattann sé að sækja núna muni þetta ganga yfir. Jóhannes segist hafa gengið í gegnum ýmsar kreppur í gegnum tíðina og staðið þær allar af sér.

Fjörukráin er opin alla daga frá kl. 18:00, þar má nýta Ferðagjöfina og nú er tilboð á gistingu hjá þeim í gegnum Hópkaup.

 

 

 

 

Previous
Previous

Íshestar

Next
Next

H-Berg