Íshestar
Perla í upplandi Hafnarfjarðar er fyrirtækið Íshestar þar sem hægt er að fara í reiðtúr, sækja reiðnámskeið, taka hest í fóstur, fara með starfsmenn í hvataferð nú eða halda barnaafmæli, fermingu eða brúðkaup.
Við hittum Magnús, framkvæmdastjóra og einn af eigendunum sem og Erlu, sölu- og markaðsstjóra Íshesta til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Íshestar eiga 140 hross.
Reiðtúrar eða hestaferðir
Íshestar var stofnað árið 1982 af þremur fjölskyldum, með Einar Bollason fremstan í flokki. Hann og hans fjölskylda hafa nú dregið sig út úr rekstrinum en Magnús segir að Einar hafi verið mikill frumkvöðull á sviði hestatengdrar ferðaþjónustu á Íslandi og sé þeim enn innan handar.
Í dag er fyrirtækið einkahlutafélag í eigu þriggja fjölskyldna, þó annarra fjölskyldna en í upphafi. Magnús og hans fjölskylda eru þar á meðal en þau eru öll í hestunum.
Íshestar er fyrst og fremst ferðamannafyrirtæki og tekur vanalega á móti um 20 þúsund ferðamönnum á ári sem annað hvort koma í styttri reiðtúra eða nokkra daga hestaferðir.
Fleiri námskeið
Þetta árið hefur þó verið töluvert öðruvísi sökum Covid en nauðsynlegt var að finna aðrar leiðir til að sinna hrossunum 140, sem fyrirtækið á, og nýta innviðina. „Við ákváðum að fjölga námskeiðum til muna í vor og sumar sem gekk mjög vel og greinilegt að eftirspurnin var til staðar. Við verðum því líka með námskeið í vetur og það er í raun orðið fullt á barnanámskeiðin en laus pláss fyrir fullorðna“, segir Magnús.
Hestur í fóstur
Börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í hestamennskunni en eiga ekki hest geta tekið hest í fóstur hjá Íshestum og hugsa þá um hann eins og sinn eiginn ásamt því að læra að vinna dagleg verk í hesthúsi. Það að vera í hestamennsku snýst ekki bara um að ríða út heldur þarf að kemba, leggja á, setja sag í stíur, hreinsa gerði og gefa. Allt þetta geta börnin lært á tólf vikna námskeiði og þegar þau útskrifast jafnvel gengið í hestamannafélag.
Þessi námskeið hafa verið mjög vinsæl en þau eru í umsjá Margrétar, sem er auk þess að vera afar fær með hesta, er einnig með kennaramenntun.
Veislur og hvataferðir
Aðstaðan í húsnæði Íshesta er afar góð, þar er fullbúið veislueldhús og hlýlegur salur. Þar hafa verið haldnar giftingar- og fermingarveislur og nokkuð vinsælt er að halda barnaafmæli hjá þeim. „Við höfum verið að taka á móti heilu bekkjunum en þá eru stundum nokkrir að halda afmæli saman og hér er mikið fjör. Krakkarnir fá að fara á bak í gerðinu okkar en þau sem ekki vilja fara á bak geta tekið mynd af sér með hestunum“, segir Erla og bætir við að þau feli líka stundum bangsa í skóginum, gamall og góður leikur sem ávallt vekur lukku.
Fyrirtæki hafa einnig verið að koma með starfsfólk sitt í svokallaðar hvataferðir sem hægt er að sérsníða fyrir hvern hóp fyrir sig. Þau er mjög stutt frá borginni en samt í afar rólegu og fallegu umhverfi. Þarna er jafnframt fín aðstaða til fundarhalda og svo er hægt að fara í reiðtúr eða leiki tengda hestunum.
Einstök staðsetning
Staðsetningin í upplandi Hafnarfjarðar er einstök að mati Magnúsar. „Hér eru bestu reiðleiðirnar á höfuðborgarsvæðinu, fjölbreytt landslag, hraun, skógur og fjöll“, segir hann. Þá sé líka gott að vera svona miðsvæðis á leiðinni til Keflavíkur og í Bláa lónið.
Hestahnegg og fuglasöngur
Magnús byrjaði í hestamennsku fyrir tíu árum og er kominn með bakteríuna, en fyrir voru konan hans og börn í íþróttinni. Hann segir að þessu fylgi mikil ástríða og mjög fljótt verði hestarnir manns bestu vinir. Aðspurður hvort hann eigi einhvern uppáhalds hest segir hann svo ekki vera en þó eigi hann uppáhalds minningu með hverjum hesti fyrir sig.
Erla segist vera meira í hundunum en fór á reiðnámskeið fyrir fullorðna þegar hún byrjaði í starfinu og lærði heilmikið. Hún hvetur að lokum fólk til að koma til þeirra og upplifa, sumt er ekki hægt að lýsa með orðum, fólk verður bara að prófa en hún lofar þeim hestahneggi og fuglasöng.