JAK

Rafsuðuvélar, rafsuðuvírar, plasmaskurðarvélar, loftpressur og rafsuðuhjálmar eru meðal þess sem finna má hjá JAK á Dalshrauninu.

Við fórum að hitta hjónin Aðalstein og Oddný til að kynnast starfseminni í þessu rétt rúmlega 30 ára gamla fjölskyldufyrirtæki.

JAK1.jpg

Fyrirtæki vikunnar

JAK, fjölskyldufyrirtæki á Dalshrauninu

Upphafsstafirnir

Árið 1989 ákvað vélvirkinn Jón Arnar Karlsson að stofna fyrirtæki með vörur fyrir málmiðnaðinn. Hann byrjaði fyrst í bílskúrnum heima, stoppaði síðan stutt í húsnæði á Flatahrauninu en fann fljótt framtíðarhúsnæðið á Dalshrauninu og hefur verið með fyrirtækið þar allar götur síðan. Þegar kom að því að velja nafn á fyrirtækið ákvað Jón að nota einfaldlega upphafsstafi sína og úr varð JAK ehf.

Anna Björg kona Jóns hóf fljótt störf í fyrirtækinu og nokkrum árum eftir stofnun byrjaði Aðalsteinn sonur þeirra að vinna hjá þeim og því sannarlega um fjölskyldufyrirtæki að ræða. Í dag hafa Jón og Anna Björg að mestu dregið sig út úr rekstrinum og Aðalsteinn stendur vaktina ásamt Oddný eiginkonu sinni. 

JAK8.jpg

Fastakúnnar og framtíðarviðskiptavinir

Það eru fjölmargir fastakúnnar sem koma reglulega á Dalshraunið og hafa gert það til fjölda ára, sumir allt frá upphafi. Það eru aðallega járnsmiðir og verktakar en skólarnir versla einnig töluvert við þau. „Það hefur verið mikil aukning í grunndeild málmiðnaðar í Tækniskólanum og Borgarholtsskóla og skólarnir kaupa því meira en áður“, segir Aðalsteinn og bætir við að nemendur í hönnun séu einnig mikið í eldsmíði og kemur sá hópur, þar á meðal fleiri konur, líka inn í viðskiptavinahópinn.

Sökum Covid þurfa nemendur núna að eiga sína eigin rafsuðuhjálma og hlífðargleraugu og því meira um að ungt fólk komi inn í búðina. „Við veitum þeim góðan afslátt og það er gaman að fá nemendur til okkar enda vonandi um framtíðarviðskiptavini að ræða“, segir Aðalsteinn með bros á vör.

JAK4.jpg

Meira um símtöl og tölvupósta

Covid hefur ekki haft mikil áhrif á sölu sem er mjög svipuð og á síðasta ári. „Við seljum hins vegar meira í gegnum síma og tölvupóst þar sem sumir vilja vera minna á ferðinni“, segir Oddný en hún sér þá oftast um að keyra vörurnar til viðskiptavina og í vor þegar Covid ástandið var verst þurfti hún oft að skilja pakkana eftir fyrir utan dyrnar hjá fyrirtækjum.

Vissulega koma þó margir enn í búðina sérstaklega ef þeir eru eitthvað að spá og spekúlera og vantar faglega aðstoð. Aðalsteinn sér einnig um að kenna viðskiptavinum á vélarnar og þá er nú betra að mæta á staðinn.

Rafsuðuvírinn eins og mjólkin

Þegar spurt er um vinsælustu vöruna þá nefna þau bæði rafsuðuvírinn eða hann er allavega mest keyptur. „Rafsuðuvírinn er eins og mjólkin á heimilinu, hann klárast oft og þá þarf að kaupa meira“, segir Aðalsteinn.

Í JAK eru nokkur vörumerki en þau hafa sem dæmi verið með danska merkið Migatronic & Hypertherm frá USA allt frá upphafi og selja einnig vörur frá Fronius og fengu umboðið fyrir ESAB fyrir nokkrum árum og eru afar ánægð með það. Aðalsteinn sækir einnig reglulega námskeið, kynningar og ráðstefnur til að fylgjast með þróuninni sem á sér stað í málmiðnaðinum, eitthvað sem hann telur vera afar mikilvægt.

JAK7b.jpg

Gaflarar

Aðalsteinn og Oddný eru bæði sannir Gaflarar, fædd á Sólvangi og hafa alla tíð búið í Hafnarfirði.  „Hér er allt svo lítið og þægilegt, stutt í allt og fjölskylduvænt“, segir Oddný. 

Þegar þau eru ekki í vinnunni þá gengur Oddný gjarnan á fjöll, þau ferðast líka mikið saman með börnum og barnabörnum en allt sem inniheldur vél heillar Aðalstein mikið hvort sem það séu mótórhjól, rallýbílar, vélsleðar eða jeppar.

 
Previous
Previous

Prentun.is

Next
Next

Íshestar