Prentun.is

Í bakhúsi á Bæjarhrauni 22 er eina starfandi prentsmiðjan í Hafnarfirði og þar er hægt að láta prenta allt sem hugurinn girnist, stórt sem smátt.

Við fórum að hitta tvo af eigendunum þá Hlyn Guðlaugsson og Þorstein Yngvason.

prentun7b.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Hjá Prentun.is má finna nýjar og gamlar prentvélar.

Mikil þróun

Prentsmiðjan var stofnuð árið 1997 af Guðlaugi Sigurðssyni (Lauga), föður Hlyns en Hlynur og Þorsteinn (Steini) komu fljótlega inn í reksturinn. Laugi hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um tæki og tilbúinn að tileinka sér nýjungar og var prentsmiðjan því strax stafræn og hét einfaldlega Stafræna prentsmiðjan, tækni sem var að ryðja sér til rúms á þeim tíma. Í takti við þróunina í faginu ákváðu þeir fyrir nokkrum árum að breyta nafni fyrirtækisins í Prentun.is.

Samstarfið hefur gengið vel í gegnum árin en þeir eru allir menntaðir í faginu en hafa ólíka styrkleika sem hentar ákaflega vel í svona rekstri. Það er mikil þróun í  prentiðnaðinum en samkvæmt Hlyn hafa þeir ávallt lagt áherslu á að að vera fremstir meðal jafningja í tækninýjungum og aðferðum til prentunar.

Um aldamótin fluttu þeir í húsnæðið á Bæjarhrauninu og hafa verið þar allar götur síðan.

prentun4.jpg

Ánægðir með nýju vélinni

Þau eru mörg handtökin í prentsmiðju sem þessari og vélarnar eru margar. „Við vorum að fá nýja prentvél sem er flaggskipið í þessum bransa og erum ákaflega ánægðir með hana“, segir Hlynur. Þarna eru nokkrar stafrænar prentvélar en einnig svokallaðar offset vélar sem og gamlar og fallegar prentvélar kallaðar díglar en auk þess má finna fjöldan allan af allskyns smávélum og tækjum sem sjá meðal annars um að hefta, bora, fella og brjóta. Sumar eru gamlar en standa algjörlega enn fyrir sínu. „Hérna mætir gamli tíminn þeim nýja“, segir Steini þegar hann sýnir eitt tækið sem kallast hornskella og rúnar horn á pappír.

Með allan þennan fjölda af tækjum geta þeir prentað nánast allt, hvort sem það er lítið nafnspjald eða risaplakat í metravís. „Við getum einnig séð um að hanna allt útlit“ segir Steini sem stýrir hönnunardeild fyrirtækisins „og bjóðum upp á hraða, gæði og gott verð“, bætir Hlynur við.

prentun1.jpg

Góð þjónusta mikilvæg

Viðskiptavinahópurinn er afar fjölbreytur, allt frá stærstu fyrirtækjum landsins niður í einstaklinga. Það er mikil fjölbreytni í verkefnum og Hlynur segir að í raun sé enginn dagur eins. Aðspurður hvort honum finnist einhver verkefni skemmtilegri en önnur segir hann að svo sé eiginlega ekki, þó sé reyndar gaman að vinna með skáldsögur og ljóðabækur þar sem þau verk eigi sér svo langan líftíma. „Mikilvægast af öllum í þessum bransa er samt að veita góða þjónustu“, segir hann.

Áhrif Covid

Hluti viðskiptavina Prentun.is eru hótel, veitingastaðir og aðrir í ferðaþjónustu og Covid hefur því eðlilega haft áhrif á reksturinn. „Það er er erfitt að meta stöðuna eins og hún er í dag en það þýðir ekkert annað en að halda áfram og vera tilbúinn þegar ástandið batnar, og það mun batna á endanum“, segir Hlynur og bætir við að fyrirtækið hafi verið vel rekið í gegnum tíðina og það hjálpi mikið á svona óvissutímum. 

prentun9.jpg

Best við Hafnarfjörðinn

Laugi, Hlynur og Steini eiga allir rætur að rekja til Vestmannaeyja og tengja því vel við höfnina og miðbæinn hér í Hafnarfirði.

Hlynur segir annars að það besta við Hafnarfjörð sé einfaldlega fólkið en vissulega líka flott og einstakt bæjarstæði en hann reynir að sækja alla verslun og þjónustu hér.

Steini býr í Garðabænum en er afar sáttur við að vera með fyrirtækið í Hafnarfirði. „Það eru forréttindi að vera á móti umferð alla daga“, segir hann og brosir.

 

Previous
Previous

Saga Natura

Next
Next

JAK